Björgvin Unnar,  Lífið og tilveran,  matur

Eldað fyrir barn sem borðar ekki

Björgvin Unnar var mjög veikur þegar hann fæddist og fékk sondu um leið og hann fæddist. Þegar hann var 5 mánaða fékk hann svo magasondu sem er hnappur sem fer beint inn í magann. Vegna veikinda hans þá missti hann algjörlega af því að sjúga brjóst eða pela og missti því niður hæfileikann til þess að kyngja. Eftir því sem tíminn leið og Björgvin Unnar styrktist þá þróaði hann með sér meiri og meiri fælni gagnvart því að setja mat upp í munn og kyngja. Nú í dag kúgast hann við það eitt að fá bragð og lítil korn í munninn. Eina matarkyns sem hann setur upp í sig er vatn.

Á meðan við vorum á spítalanum fékk Björgvin Unnar næringarblöndu sem var dælt í magann á honum á löngum tíma. Þegar við komum svo heim ákváðum við að fara að gefa honum “alvöru” mat. Við fórum í það að búa til uppskrift og láta reyna á hana. Í fyrstu var uppskriftin okkar ekki nógu hitaeiningarík svo Björgvin Unnar byrjaði að léttast, læknarnir voru ekki mjög sáttir við það. Í samráði við næringarfræðing bjuggum við til nýja uppskrift þar sem allar hitaeiningar voru reiknaðar út svo hann fengi nú nógu mikið. Sú uppskrift hefur núna verið nokkuð svipuð í rúmt ár og heldur Björgvin Unnar áfram að stækka, þyngjast og þroskast eðlilega.

Mesti munurinn sem við sáum eftir að við skiptum um næringu var að um þrem mánuðum eftir að við tókum út alla kúamjólk þá batnaði lungnastatusinn hans svo mikið að hann þurfti ekki lengur að nota öndunarvél á daginn. Með tímanum gat hann svo minnkað við þau lyf sem hann var að taka tengd veikindum hans og í dag er aðeins eitt lyf eftir.

Í hverri viku eldar Jónína stóran skammt af mat. Matinn þarf svo að setja í blandara svo blandan sé nógu þunn til þess að komast í gegnum sprautu.

*Allt sem fer í matinn

*Linsubaunir, kínóa, kasjúhnetur og möndlur

*Rófur, rauðrófur, kartöflur, sætar og brokkolí

 

*Björgvini Unnari finnst mjög gaman að fá að hjálpa til við matargerðina

 

*Fyrri helmingurinn blandaður

 

*Restin blönduð